Ritstjórn SPORTTV ritstjorn@sporttv.is

EHF Meistaradeild kvenna | Anita Görbicz framlengir við Györi ETO

G_rbe_hosszabb_t_s.jpg

Handboltagoðsögnin Anita Görbicz hefur ákveðið að framlengja samning sinn við ungverska liðið Györi ETO en þessi frábæra handknattleikskona hóf feril sinn hjá félaginu aðeins 10 ára gömul. Þegar hún var 15 ára þá spilaði hún sinn fyrsta meistaraflokksleik þar sem hún hóf strax að láta til sín taka og skoraði 3 mörk í þessum fyrsta leik sínum. Síðan þá hefur hún spilað 679 leiki með félaginu og skorað í þeim 3.611 mörk eða 5.3 mörk að meðaltali í leik. Görbicz hefur tólf sinnum orðið ungverskur meistari með liðinu ásamt því að vinna bikarkeppnina þrettán sinnum og Meistaradeild kvenna fjórum sinnum.

"Anita er frábær leikmaður sem og goðsögn í félaginu. Það var því sjálfsagt mál fyrir mér að hún myndi halda áfram að spila fyrir félagið svo lengi sem hún treysti sér til þess. Þess vegna ákváðum við að framlengja samningnum við hana og ég er sannfærður um að hún mun halda áfram að leiða félagið til glæstra sigra", sagði Dr.Csaba Bartha forseti félagsins við undirritunina.

"Ég hef ekki spilað fyrir annað félag á mínum ferli og ég hef vitað í töluverðan tíma að ég myndi ekki koma til með að spila fyrir annað félag. Það eru fáir sem fá það tækifæri að njóta svona mikillar velgegni með uppeldisfélagi sínu en ég er ein af þeim heppnu. Györ er svo mikið meira en félag, það er í raun fjölskylda. Mér líður vel og er í góðu standi og þess vegna ákvað ég að taka tvö ár í viðbót og mig langar að hjálpa félaginu í að ná árangri á næstu árum", sagði Anita Görbicz við undirritunina.