Ritstjórn SPORTTV ritstjorn@sporttv.is

EHF Meistaradeild kvenna | Nora Mörk þarf að fara í aðra aðgerð

Það á ekki af henni Noru Mörk að ganga þessa dagana. Í ljós hefur komið að hún þarf að gangast undir aðra aðgerð vegna hnjámeiðsla, en Mörk hafði verið á góðum batavegi eftir aðgerð á krossbandi sem hún sleit í febrúar á þessu ári. Bataferlið var á svo góðu skriði að hún var farin að gera sér vonir um að geta spilað með norska landsliðinu á EM í janúar á næsta ári. Sá draumur hefur nú snarbreyst í martröð eftir að í ljós kom að annarrar aðgerðar á sama hné er þörf. Það var TV2 í Noregi sem greindi frá þessu.

"Ég fékk slink á hnéð fyrir tveimur vikum sem ég vonaðist til að væri aðeins smávægilegt. Ég tók mér pásu frá æfingum en leið mjög illa. Þetta varð bara verra og verra", sagði Mörk í viðtali við TV2.

"Þetta er líklega liðþófinn sem hefur skemmst en það þarf aðgerð til þess að sjá hvert vandamálið nákvæmlega er. Ég óttast það versta, þetta gætu orðið aðrir sex mánuðir.

Þetta er enn eitt áfallið sem dynur á þessari frábæru handknattleikskonu og hún segist vera nálægt því að missa trúna.

Ég þarf að fara í mína áttundu hnéaðgerð. Þetta er í fyrsta skipti sem ég hef misst hugrekkið og hvatninguna. Ég bara veit ekki við hverju á að búast, í augnablikinu er ég bara handboltakona sem fær ekki að spila handbolta. Ég hef misst trúna, þetta virðist allt vera tilgangslaust. Ég veit ekki lengur hverju ég á að þora að trúa og vonast eftir."

Eins og áður segir hefur Nora Mörk verið frá keppni í átta mánuði en var á góðri leið í endurhæfingunni og útlit fyrir að hún væri að komast aftur á parketið."Ég var á svo góðu róli eftir krossbandaaðgerðina. Ég átti að hefja handboltaæfingar á mánudaginn, ég var 99% viss um að ég myndi ná EM. En það var auðvitað of gott til að vera satt."

Nils Leraand, læknir norska landsliðsins, staðfestir í viðtali við TV2 að EM-draumur Noru sé úti.

"Nora meiddist á hné við æfingar. Við munum senda hana í speglun til þess að skoða liðþófann. Við erum ekki að tala um nýtt krossbandaslit, en það er ljóst að hún mun ekki spila á EM."

Nils sagðist ekki geta sagt til um það hversu lengi Nora Mork verður frá að þessu sinni."Við vitum það ekki fyrr en við höfum séð hversu stórt vandamálið er, en það munu þó vera einhverjir mánuðir. Hún mun ekki spila handbolta fyrir jól í það minnsta".

Nora Mörk mun fara í aðgerðina á næstu dögum á Ullevål-spítalanum í Noregi.