Ritstjórn SPORTTV ritstjorn@sporttv.is

Handbolti | Umtalsverðar breytingar á Evrópukeppnum framundan

Framkvæmdarstjórn EHF ákvað á fundi sínum í vikunni breytingar á fyrirkomulagi á Evrópukeppnum á vegum sambandsins. Þessar breytingar eru umtalsverðar en jafnframt verður hert verulega á umgjarðarreglum sambandsins. Þessar breytingar munu koma til framkvæmdar tímabilið 2020-2021. EHF bikarinn og áskorendakeppnin fá ný nöfn en þau verða Handboltadeild Evrópu (áður EHF bikarinn) og EHF bikarinn (áður áskorendakeppnin) og þar með verða heitin á þessum keppnum ein bæði í karla og kvennaflokki. Eins var ákveðið á þessum fundi nýjir leiktímar í Meistaradeild Evrópu og Handboltadeild Evrópu í karlaflokki. Leikir í Handboltadeild Evrópu verða á þriðjudagskvöldum en leikirnir í Meistaradeild Evrópu verða á miðvikudags og fimmtudagskvöldum og verður boðið uppá tvö leiktíma á þessum kvöldum, kl.18.45 annars vegar og 20.45 hins vegar (miðað við CET). Þá hafa kröfunar um keppnishallir verið hertar til muna en til þess að fá þátttökurétt í Meistaradeild Evrópu þarftu að hafa höll sem tekur 4.000 manns í sæti og það þurfa að vera sæti á öllum fjórum hliðum vallarins, það verður gefin aðlögun á þessum reglum næstu fjögur keppnistímabil en frá og með tímabilinu 2023-2024 verður þetta orðin skylda. Sú breyting verður á Handboltadeild Evrópu (áður EHF bikarinn) að frá og með riðlakeppninni verður skylda að spila á keppnisdúk frá EHF en þess hefur ekki þurft í EHF bikarnum hingað til. Þetta er gert til þess að fá heildar útlit á þessa keppni líkt og er í Meistaradeildinni.

Svo að lokum ákvað framkvæmdarstjórnin að breyta þeim reglum sem stjórnin er með þegar kemur að því að ákveða hvaða lið fá þátttökurétt í Meistaradeildum karla og kvenna. Hingað til hefur þessu verið skipt uppí 8 flokka en þeim verður nú fækkað niður í 5 flokka. Allir þessir flokkar hafa jafnt vægi þegar kemur að ákvörðun.

Þessir 5 flokkar eru: Íþróttahús, Sjónvarpsréttur, áhorfendur, fyrri árangur í Evrópukeppnum og rekstur félagsins.

thumb.jpg

Breytingar á Meistaradeildum karla og kvenna

Keppnisfyrirkomulagið verður eins hvort sem er í karla eða kvennaflokki en frá og með tímabilinu 2020-2021 verða aðeins 16 lið sem komast í Meistaradeildina og verður spilað í tveimur 8 liða riðlum þar sem tvö efstu liðin í hvorum riðli komast beint í 8-liða úrslit en liðin 3-6 þurfa að spila í umspili um að komast þangað. Framkvæmdarstjórn EHF hefur líka gefið það út eftir hverju verður farið þegar kemur að því að úthluta liðum þátttökurétt í Meistaradeildinni.

 • Sæti 1-9: Þjóðir sem eru í efstu 9 sætum í styrkleikalista EHF (1 sæti frá hverju landi)
 • 10.sæti: lið frá Handboltadeild Evrópu ( lið frá þeirri þjóð sem hefur náð bestum árangri í Handboltadeild Evrópu þrjú ár á undan)
 • Sæti 11-16: Framkvæmdarstjórn velur lið í þessi sæti með hliðsjón hvaða lið uppfylla fyrirfram ákveðin þátttökuskilyrði.

Handboltadeild Evrópu Karla

Spilað verður með riðlakeppnisfyrirkomulagi með 24 liðum sem fá þátttökurétt í keppninni eftir þessum reglum.

 • 12 lið fá öruggt sæti í riðlakeppninni

  • 6 lið frá löndum sem eru ekki með sæti í Meistaradeildinni samkvæmt styrkleikalista (sæti 10-15 á listanum)
  • 5 lið frá löndum sem eru í sæti 1-9 á styrkleikalista EHF (annað eða þrjðja lið frá viðkomandi þjóð)
  • 1 lið frá EHF bikarnum (lið frá þeirri þjóð sem hefur náð bestum árangri í EHF bikarnum undanfarin þrjú tímabil)
 • 12 lið fá sæti eftir að hafa farið í gegnum forkeppni
  • 4 lið fara beint í 2.umferð forkeppninnar
  • 40 lið byrja að fara í 1.umferð forkeppninnar

Handboltadeild Evrópu Kvenna

Spilað verður í riðlakeppnisfyrirkomulagi eins og hjá körlunum en það verða bara 16 lið sem komast í þá riðlakeppni.

 • 4 lið fá öruggt sæti í riðlakeppninni (þjóðir í sæti 1-4 á styrkleikalista EHF)

 • 12 lið fá sæti eftir að hafa farið í gegnum forkeppni
  • 8 lið fara beint í 3.umferð forkeppninnar
  • 8 lið fara beint í 2.umferð forkeppninnar
  • 44 lið byrja að fara í 1.umferð forkeppninnar