Ritstjórn SPORTTV ritstjorn@sporttv.is

Nora Mørk meidd á hné | verður frá í nokkra mánuði

nora.jpg

Norska handknattleikskonan Nora Mørk varð fyrir enn einu áfallinu um liðna helgi þegar hún meiddist á hné í leik með liði sínu CSM Búkarest þegar að liðið spilaði gegn Valeca í meistarakeppni rúmenska handknattleikssambandsins. Atvikið átti sér stað í upphafi seinni hálfleiks sem gerði það að verkum að Nora Mørk gat ekki haldið leik áfram. Rúmenska félagið staðfesti það á heimasíðu sinni að norska landsliðskonan hafi undirgengist læknisskoðun í dag og niðurstaðan úr þeirri skoðun var sú sem allir óttuðust. Liðband í vinstra hné skaddaðist og þarf hún því að fara í aðgerð og mun hún vera frá keppni í nokkra mánuði, jafnframt segist félagið ætla að gera allt til þess að hjálpa Nora Mørk í bataferlinu og sjá til þess að hún snúi tilbaka sterkari sem aldrei fyrr.

"Ég trúi ekki hversu óheppin ég er. Ég er mjög leið yfir því að þetta gerist núna þegar allt virtist vera að ganga vel hjá mér og ég í góðu líkamlegu ástandi. Mér þykir leitt að ég komi ekki til með að geta hjálpað stelpunum og liðinu að ná öllum markmiðum okkar",sagði Nora Mørk á heimasíðu rúmenska félagsins.

Anne Froholdt læknir norska landsliðsins vildi ekki segja til um hversu alvarleg meiðslin væru fyrr en hún væri sjálf búin að framkvæma skoðun á hnénu á Nora Mørk þrátt fyrir yfirlýsingar rúmenska félagsins. "Við höfum ákveðið að skoða hana hér í Noregi og taka ákvörðun eftir það. Við munum vita meira á miðvikudaginn um það hversu alvarleg meiðslin eru og hversu lengi hún verður frá keppni", sagði Froholdt í viðtali við norska blaðið VG.

Þórir Hergeirsson landsliðsþjálfari Noregs vildi heldur ekki tjá sig um málið fyrr en læknir norska liðsins væri búinn að framkvæma læknisskoðun á Nora Mørk en líklegt verður að teljast að hún nái ekki að taka þátt á heimsmeistaramótinu sem fer fram í Japan í desember á þessu ári.